Sunday, October 28, 2007

Belangrjik?

Er eitthvað orð á hollensku;-). Ég er búinn að vera mikið að læra seinustu daga þar sem það er prófatörn. Pabbi kom í heimsókn seinustu helgi þar sem hann er að vinna að verkefni hér í Hollandi. Það var lúxus líf á okkur, út að borða á misgóðum stöðum osfr. Ég fór með hann í skólann en þar sem það er allt lokað þar um helgar gat ég ekki sýnt honum meir en FS aðstöðuna. Á myndinni sjáiði bílinn frá í fyrra og 04. En ég var einmitt að klára að hanna framfjöðrun 08 bílsins í gær. Magnað dæmi, ætli það verði ekki að smíða sér ofur jeppa með ofur fjöðrun allt úr carbon fiber, 350kg 700hö þegar mar kemur heim eftir að hafa lært þetta.
En meira af heimsókninni góðu. Við smelltum okkur til rotterdam, kíktum þar á hafnarsafnið og röltum um bæjinn osfr, einhverstaðar á miðri leið göngum við á alveg haug af fólki sem er búið að stilla sér upp við eina götuna í borginni og það er fólk eins og augað eigir í báðar áttir. Ég hélt að drollann ætlaði að láta sjá sig og spurði konu eina þarna. Það var eitthvað barnaband á leiðinni, við létum okkur hverfa. Klst seinna var kominn tími á að halda heim á leið og við gengum að bílnum og komumst að því að við vorum lagðir á götunni sem að allir stóðu að bíða eftir þessu bandi. Svo við vorum tilneyddir til að snæða þarna þar sem gatan var lokuð þar til bandið færi framhjá. Það passaði ákkurat að þau voru farin framhjá þegar við lukum við beikonlokurnar.

Vikan í skólanum var skrautleg, það var voru kynningar fyrir nemendur næsta árs, allskonar sniðugt dót sem að nemenur eru að vinna að hérna var til sýnis t.d. Formula Student, Nuna solarchallenge, Formula zero vetnis körtur og fullt af flottum tækjum sem virka ekki frá iðnhönnuðunum. Hér koma krakkarnir í háskólann 18 ára? Hvað er eiginlega kennt heima sem þau þurfa ekki að læra hér? Allaveganna þá nutum við góðs af þessu, frí áta og ýmislegt góðgæti.


Svo voru menn að þeysast um á SEGWAY sem er alveg ótrúlegt tæki, ramagnshjól sem virkar sem reglaður öfugur pendúll og ég náði að tala eigandann að hjólunum til að leyfa mér á prófa. Þetta er alveg magna, eins og að vera á skíðum en samt ekki, mar bara hallar sér aðeins fram og þá fer þetta af stað. Verð að eignast svona, verst að ódýrasta týpan kostar littlar 300 þús hérna ég fékk að prufa offroad týpuna sem kostar um 600þús.
nótt skall á vetur í Hollandi, klukkan fór aftur um eina klst en ég gat ekki notið þess því hann Jón reif mig á fætur kl 10 í morgun að vetrartíma til að læra. Bastarðurinn! Hann var að fjárfesta í þessum svakalega tyrkjabens og tryllir nú um allt með scooter í botni og nýgelaðar strípur, persónulega held ég að hann sé að fíla þessa hollensku stemmningu.




Jæja meira var það ekki að sinni.




Ps skeggið er komið í 30mm, pælið í því! Þvílíkur vöxtur, verst hvað það krullast verður bara massífara í staðinn fyrir að sýnast lengra.

Thursday, October 18, 2007

Þristafyllt ss pylsa vafin með harðfisk og dýfð í tópasídýfu

Hljómar það ekki eitthvað oná brauð. Þetta er allaveganna hugmynd að einhverju góðu fyrir þann sem ekki hefur fengið neitt af þessum íslensku gæðum nýlega. Í gær kom gamli í heimsókn með fangið fullt af pulsum, tópas og harðfisk.
Svo það verður pulsuparty á morgun.
En þessa daganna er bara lærdómur og meiri lærdómur, erum að klára nokkur fög með prófum í næstu viku og á sama tíma er formula student að fara hratt af stað. Strákarnir í liðinu eru með háar kröfur, þetta er bara alveg full vinna næstum því, með skýrslugerðum tímaskilum og allur pakkinn. Þetta á eftir að vera mikill og góður lærdómur.

Svo var mér bent á þetta hérna mjög flott sería af strákunum að surfa heima. Ísland er paradís, mar þarf bara að vera í ullarpeysu.

En verð víst að fylgjast með í tímanum svo ég kem með uppdeit seinna.
Alltaf sama grillið í prófatörnum.

Thursday, October 11, 2007

Ekki er allt sem sýnist

Já, ég sagði eitthvað um að skólinn væri frekar rólegur áður en ég fór til danmerku. Það er breytt, nú er brjálað að gera. Verkefnaskil og svo miðannapróf. Þegar ég ákvað að fara hingað þá var það í þeirri trú að hér væri 2:3 kerfi en það er í raun 5:5 ss full prófatörn 2 svar á önn. Eðall!
Þetta fer samt allt vel eins og alltaf.
Formula student er líka komin á fullt og á ég eftir að hafa meir en nóg að gera. Þar sem ég var í danmerku þegar verkefnum var úthlutað fékk ég engu um það ráðið hvað ég fékk en fékk samt mjög öflugt verkefni sem er að hanna geómetríuna á fjöðruninni. Þeas hvernig hjólabúnaðurinn á að virka við álag.
Það var svo fyrsta keppni af nokkrum í gær til að skera úr um hverjir fá svo að keyra bílinn. Keppnin var haldin á gókartbraut hérna í Delft. Rosaleg braut á 4 hæðum? En það var bara opið á 3 hæðir þennann daginn, en það var samt rosalegt að fara svona á milli hæða. 10 bílar á brautinni í einu, 48 manns að keppa og ég lenti í 23 sæti sem er bara nokkuð gott m.v. að þarna eru margir strákar sem karta mikið. Ég hef ennþá sjéns til að komast áfram, verð bara að æfa mig aðeins. Tók myndavélina með en gleymdi batteríinu.
Svo það skemmtilegasta.
Ég og Jón vinur minn og félagi erum búnir að vera að sprikkla saman undanfarnar vikur, hann er frekar gisinn greyjið og á það til að skjóta á mig vegna þyngdar minnar. Allaveganna fórum við í fitumælingu í morgunn og vitir menn, hann Jón er feitastur allra íslendinga í okkar fagi hér í Delft honum til lítillar skemmtunar
Sorry Jón, ég veit að þú hefur tilfinningar en ég bara varð að koma þessu frá mér;-)
Og svo það versta.
Ég finn ekki Texasinn minn, ef einhver hefur eitthvað séð af honum vinsamlegast látið mig vita hið snarasta.
Texas: TI-89 scientific calculator

Sunday, October 7, 2007

Joutsen

Þá er ég kominn til Delft á ný. Ferðin til Danmerkur var snilld frá upphafi til enda. Hún byrjaði með 832km/9,5klst keyrslu þar sem ég stoppaði bara einusinni í 5 mín til að taka bensín, mig svimaði meðan ég dældi á bílinn. Svo var komið til Birkis og Evu í Odense sem var mjög næs, góður matur! Ég skoðaði skólann þeirra sem er gamall en þar er verið að smíða allskonar sniðugt af nemendum og svo bæjinn, gerðum tilraun til að hitta Kim Larsen en hann reyndist ekki vera á barnum sínum það kvöldið. Þá var farið til Sönderborg. Strákarnir úr Hr voru mættir og að sjálfsögðu komnir í danska ölið. Fyrsta kvöldið fór í að leggja línurnar með nossurunum sem voru miklir snillingar. Vikan á námskeiðinu var skemmtileg fyrirlestranrir fóru fram í glænýjum skóla þeirra en eitthvað hefur farið á mis við hönnun skólans þar sem netið var hægt, gömlu góðu krítartöflurnar og svo voru engar innstungur. Lærðum mikið af nýjum hlutum og að fá að sjá framleiðsluaðferðirnar, tæknina og það að vinna í hóp með fólki með mjög mismunandi bakgrunn var mjög skemmtilegt. Td samanstóð hópurinn minn af mótorhjólagellunni Arja frá finnlandi sem er í byggingar, metro dananum Niels í design og Pál frá noregi sem er í Véla. Við áttum að hanna stól úr áli og samstarfið var jafn fjölbreytt og þjóðernin. Námskeiðið var frá 9 til 1630 alla daganna og svo fóru kvöldin í að mingla við skandinavanna. Ég sá það að Egill á eftir að enda þarna, þar sem að það er seldur bjór í sjálfsölum og í skólamötuneytinu, hann var í himnaríki, svo var hann eitthvað að spá í að setja upp eigin síðu, String-egill.is ef þið smellið á linkinn endiði á þýsku útgáfunni. Það sem stóð uppúr var svo fimmtudagskvöldið þar sem það var slegið til veislu. Danirnir höfðu útbúið boli með stigatöflu þar sem keppendur áttu að klára ákveðin verkefni og svo var merkt á bolina jafn óðum og sá sem náði flestum stigum vann. Finnarnir fóru létt með það;-) Ég setti inn fullt af myndum af öllu saman hér. Annars fannst mér Danmörk sem slík ekki spennandi land. Svo ég fór til Þýskalands í heimsókn til Steinars á leiðinni heim, hann býr í mjög nettu þýsku þorpi fyrir utan Bremen. Gisti þar eina nótt og hélt svo heim í lærdóm. Já og Joutsen er Svanur á finnsku ;-)